Himneskur hljómur

Gummi admin 21/02/2016 0 Comment(s)

 

 

 

 

Tingsha himneskur hljómur

 

 

Uppruni tingsha

Tíbetskir munkar notuðu tingsha við helgisiði sína og sem hjálpartæki fyrir hugleiðslu en tingsha  voru til vel fyrir tíma búddisma í Tíbet, notkun þeirra er hægt að rekja allt til iðkunar hins tíbetska shamanisma. Tingsha eru mjög auðveldar í notkun og í dag eru þær ekki bundnar við munka í Tíbet. Notkun þeirra er orðin mjög útbreidd og almenningur um heim allan er farinn að nota tingsha. Þær njóta aukinna vinsælda meðal heilara, yoga- og hugleiðslukennara og í síauknum mæli við tónlistariðkun. Eitt af hlutverkum tingsha er að draga okkar tvístruðu athygli að gjörhygli svo að við að endingu berum kennsl á okkar innri kjarna.

 

 

Hvað er tingsha?

Tingsha eru tvær bjöllur sem slegið er saman og þá framkalla þær tvo ólíka tóna sem renna saman og mynda einn himneskan tón. Þær koma í mismunandi stærðum og með mismunandi áletrun. Með möntrum eins og til dæmis „Om Mani Padme Hum“ eða „Om Ah Hung“ sem táknar hina uppljómuðu þrenningu: líkama, tal (eða hina uppljómuðu ræðu) og huga. Einnig koma þær með áletrunum af ýmiskonar vættum sem hafa verndarhlutverk. Tingsha eru gerðar úr mismunandi málmum sem framkalla himneska tóna sem draga athyglina til sín og skapa innra rými í huganum og gerir hugann hæfan fyrir gjörhygli.

 

 

Rýmishreinsun

Eitt af aðalhlutverkum tingsha í dag er rýmishreinsun að hætti hinnar kínversku feng shui. Hugmyndin er að með athöfnum okkar verði til tilfinningalegir pollar sem sitji eftir sem stöðnun orka í húsum okkar og hafi bein áhrif á það hvernig okkur líður. Tónn tingsha á að hreinsa þessa tilfinningalegu polla úr hýbýlum okkar.

 

 

Tónun

Tónn tingsha hefur áhrif á huga þess sem hlustar og hjálpar til að hreinsa innra rými hugans svo iðkandinn fái greiðari aðgang að gjörhygli. Víbringur tónsins er ekki einungis ætlað að hafa áhrif á hugann heldur einnig líkamann. Bylgjur tónsins hamra á húð líkamans og hafa þannig róandi áhrif. Tingsha eru tónaðar í byrjun hugleiðslu til að fá okkur til að sleppa taki af okkar daglegu athöfnum og koma aftur að andartakinu. Þær eru einnig tónaðar í lok hugleiðslu til að færa okkur með innri athygli aftur til baka í okkar daglegu athafnir.