Að finna rétta hugleiðslupúðann

Gummi admin 09/02/2016 0 Comment(s) RÁÐLEGGINGAR,

 

 

Að finna rétta hugleiðslupúðann

 

 

Stöðugleiki og opnun!

Það þarf ekki endilega að sitja með krosslagðar fætur í hugleiðslu þótt flestir velji setstöðu annað hvort með krosslagðar fætur eða krjúpandi. Mikilvægt er að hugleiðslupúðinn fullnægi mínum líkamlegum þörfum. Þegar kemur að því að finna rétta púðann þá er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 

 1. Er ég vön/vanur að sitja í krosslagðri eða krjúpandi setu?
 2. Hef ég sveigjanlegar eða stífar mjaðmir?
 3. Hvert er ástandið á mjóbakinu og hnjánum?
 4. Þjáist ég af vöðvabólgu eða stirðleika í efra baki og hálsi?

 

Rétt hæð frá gólfi skiptir mestu máli. Of lág seta getur viðhaldið stirðleika í mjöðmunum sem ferðast fram í hnén og veldur álagi að liðþófa. Of lág seta myndar of mikla kryppu í brjóstbaki  sem veldur álagi í hálsi og herðum og veldur þrengslum í öndunarrými. Of há seta ýkir aftur á móti sveigju mjóhryggs og fletur brjóstbak. Of flatt brjóstbak veldur einnig álagi á háls og herðar og þar af leiðandi einnig á hryggjarliði þar sem mjóbak og brjóstbak mætast. Sé stirðleiki of mikill eða of mikil sveigja í mjóhrygg getur það leitt til þreytu og óþæginda í líkamanum og enginn nær að hugleiða af dýpt þegar athyglin er á líkamlegum verkjum eða óþægindum.

 

 

 

Púðinn

Þegar ég vel mér púða þá þarf ég að hafa þessi atriði í huga:

 

 1. Púðinn þarf að veita mjöðmunum stöðugleika
 2. Púðinn þarf að vera þægilegur
 3. Púðinn þarf að gefa rétta hæð frá gólfi
 4. Púðinn þarf að vera nógu breiður fyrir mjaðmirnar mínar

 

Það er lykilatriði að mjaðmirnir séu hátt frá gólfi til að auka hreyfanleika þeirra og opnun. Breidd púðans á helst að fylgja lögun mjaðmanna, hafa ber í huga að breiðari mjaðmir þurfa púða sem hefur meira ummál. Lögun púðanna eru mismunandi, sumir halla fram að ofan og niður á meðan aðrir eru sléttir. Það er mjög mikilvægt að mjaðmirnar sökkvi ekki í púðann því það veldur frekar þreytu í mjóbaki og eykur álag bæði á mjóhrygg og brjóstbak. Iðkandinn þreytist mjög fljótt í þeirri stöðu.

Fyrsti púðinn kallast Zafu hálfmáni, næsti hringlaga og sá þriðju Zafu hringlaga.

 

Zafu hálfmániHringlaga púðinnZafu

 

Púðar sem halla gefa þann möguleika að það er hægt að sitja annað hvort framarlega á púðanum eða aftarlega. Þeir sem þurfa meiri hæð mjaðma frá gólfi sitja aftarlega á púðanum á meðan þeir sem hafa meiri sveigjanleika í mjöðmum sitja framarlega á púðanum.  Báðir Zafu púðarnir bjóða upp á þennan möguleika. Hringlaga púðinn er sléttur, setbeinin lagast meira að púðanum þegar hann er sléttur sem  gefur mestan stöðugleika fyrir alla mjöðmina. Hallandi púðar eru yfir höfuð lægri og stuðla að framsnúningi mjaðmanna. Sléttur púði miðar meira að því að hækka mjaðmir frá gólfi og veitir mjöðmunum meiri stöðugleika. Hálfmáninn er mýksti púðinn með bómullarfyllingu á meðan Zafu hringlaga og hringlaga púðinn eru fylltir með bókhveitihýði og sem gera púðana mun þéttari.  Það er smekksatriði hvor fyllingin er valin en sé horft til lengri tíma þá er gott að hafa í huga að bómullin gefur meira eftir en bókhveitið.

 

 

 

Setstaðan

Það er gott að finna sér setstöðu sem hentar og halda sig við hana, stöðu sem ekki veldur líkamlegum óþægindum. Staðan þarf ekki að breytast í framtíðinni því flóknari setstöður gefa ekki dýpri hugleiðslu.  Valið stendur á milli fjögurra hefðbundinna setstaðna en sveigjanleiki mjaðma sker úr um hvaða staða hentar.

 1. Sukhasana, krosslögð staða þar sem hnén eru frá gólfi
 2. Siddhasana, krosslögð staða þar sem hnén eru að gólfi
 3. Ardha padmasana, krosslögð staða þar sem annar ökklinn er færður upp að læri
 4. Vajrasana, krjúpandi staða

 

Sukhasana

SukhasanaSukhasana hliðar mynd

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hærri púðar henta sukhasana og síður hallandi púðar því hnén hvíla hátt þegar þau liggja á ökklum. Lykilatriði fyrir meiri opnun í mjöðmum er af hafa nára hærri en hné. Zafu hringlaga og hringlaga púðinn henta þessari setstöðu hvað best. Breiðari púði með meira ummál henta betur fyrir iðkendur sem vilja stuðning undir setbein og neðri hluta læranna.

 

 

 Siddhasana

SiddhasanaSiddhasana hliðar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Siddhasana og ardha padmasana eru stöður sem hafa svokallaða þríhyrningssetu. Setbein og hné eru í snertingu við jörðu (eða púða). Eins og í sukhasana þá er gott að miða við að nári sé hærri en hné. Zafu hálfmáni hentar best ef það er góð opnun í mjöðmum, annars hentar Zafu hálfmáni eða hringlaga púðinn.

 

Ardha padmasana

Ardha padmasana

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þeir sem geta setið í Ardha padmasana í þægindum hafa mjög mikla mjaðmaopnun. Zafu hálfmáninn hentar best fyrir þessa stöðu því þeir sem hafa mikla opnun sitja framarlega á púðanum og þeir sem hafa litla opnun sitja aftarlega á honum. Því aftarlegra sem setið er á púðanum því minna álag er á hnjánum.

 

 

 

Vajrasana

 

Hringlaga púðinn er bestur fyrir Vajrasana. Hann smellur vel á milli ökkla ef hann er hafður annaðhvort sléttur eða upp á rönd. Bókhveitihýðisfyllingin gefur góðan stuðning undir setbein og framanverð læri.

 

Guðmundur Pálmarsson